Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Skýrsla um æfingabúðir og þjálfaranámskeið Neven Karsai 2.-7. ágúst 2019

Frábærar æfingabúðir og þjálfaranámskeið var haldið á Íslandi á vegum BTÍ í samvinnu við ETTU 2.-7. ágúst í aðstöðu borðtennisdeildar KR í Reykjavík.

Borðtennissambandið þakkar öllum þeim sem gerðu búðirnar og þjálfaranámskeiðið að veruleika, starfsfólki ETTU og þeim Pedro Miguel Moura og Neven Cegnar sem stýra uppbyggingarstarfi hjá ETTU. Sérstakar þakkir fær Bjarni Þorgeir Bjarnason sem stóð vaktina f.h. BTÍ með þjálfaranum Ferenc Karsai og var með honum á öllum æfingum og á þjálfaranámskeiðinu.

Borðtennissambandið hefur undanfarin misseri lagt mikla áherslu á menntun þjálfara en það er staðföst trú núverandi stjórnar að vel menntaðir þjálfarar séu ein af meginstoðum hreyfingarinnar og lykill að framförum og framþróun íþróttarinnar á Íslandi.

Þjálfarinn Ferenc Karsai stýrði æfingabúðunum og þjálfaranámskeiðinu með mikilli fagmennsku með dyggri aðstoð Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar en samvinna þeirra var mjög góð. Byrjuðu þeir hvern dag með því að skipuleggja daginn og ræða einstaka þátttakendur í búðunum. Karsai er þekktur fyrir vinnusemi og tókst þeim Bjarna að halda athygli þátttakenda allan tímann. Voru búðirnar erfiðar en áhugaverðar og til mikils gagns.

Þátttakendur í búðunum voru á aldrinum 10-19 ára. 10-12 stúlkur og 10-12 drengir á hverri æfingu fyrir utan eldri leikmenn sem einnig tóku þátt. Alls voru 9 æfingar, 2 1/2 tími í senn haldnar. Búðirnar sóttu einnig aðrir þjálfarar til að horfa og læra. Æfingar voru mismunandi frá degi til dags, einfaldari fyrir yngstu þáttakendurna (undir 12 ára) en flóknari fyrir cadet og junior leikmenn. Reglulegar æfingar, óreglulegar, kúluæfingar, uppgjafir og móttökur og stuttar átakslotur sem líktu eftir spili í keppni. Einnig var farið yfir tæknileg og taktísk atriði í leik. Þáttakendur stóðu sig vel, tilbúin í þau átök sem felast í 9 æfinga hrinu á fimm dögum. Voru þau þreytt að loknum búðunum en ánægð. Hér að neðan er myndasyrpa sem tekin var meðan á búðunum stóð.

Á mánudeginum gafst færi á því að sýna Karsai eitthvað af landinu okkar. Var farið með hann Gullna hringinn, Þingvelli, Geysi og Gullfoss. Hér að neðan eru myndir úr þeirri ferð

Þjálfaranámskeiðið fór fram á þriðjudeginum 6. ágúst og miðvikudeginum 7. ágúst milli kl. 17.00 og 21.00. Það fór fram einnig í æfingaraðstöðu KR og Ferenc til aðstoðar fyrir utan Bjarna voru landsliðsmennirnir Birgir Ívarsson, Ellert Georgsson og Magnús Gauti Úlfarsson sem tóku kúluæfingar með Ferenc.

Á þjálfaranámskeiðinu fór Ferenc yfir þróun íþróttarinnar frá 1950 til dagsins í dag lagði hann sérstaka áherslu og var með lengstu umfjöllunina um þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum með nýju plastkúlunni. Hann ræddi einnig sérstaklega um mikilvægi liðsheildarinnar og hvernig þjálfari nálgast og vinnur með hverjum og einum leikmanni. Eftir þann inngang ræddi hann sérstaklega um mikilvægi kúluæfinga og sýndi með landsliðsmönnum ógrynni kúluæfinga, reglulegar, óreglulegar, frjálsar og sem líkja eftir leikaðstæðum. Hann ræddi hvernig kúluæfingar er best að nota til þess að leikmenn verði betri, bæði byrjendur og lengra komnir leikmenn. Hvernig hægt er að nota þær til að leiðrétta tækni, bæta högg, fyrir betra öryggi, fyrir móttökur og þriðja bolta. Hann ræddi einnig sérstaklega mikilvægi snöggálagslota sem líkja eftir leikaðstæðum.

Eftir fyrirlesturinn á miðvikudeginum þurfum við því miður að kveðja Ferenc. Vonumst við til að fá hann aftur til landsins og vinnur BTÍ nú að því að senda hóp til hans í ágúst 2020.

Stjórn BTÍ

Aðrar fréttir