Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Tveir einstaklingsleikir unnust á EM unglinga í dag

Tveir einstaklingsleikir unnust á EM unglinga 10. júlí. Sá fyrri kom þegar Ellert Kristján Georgsson lagði Deniss Vasiljevs frá Lettlandi 20-18 í oddalotu í viðureign Íslands og Lettlands. Ingi Darvis Rodriguez tapaði fyrir sama leikmanni 10-12 í oddalotu og því greinilega um tvo hörkuleiki að ræða. Ingi vann eina lotu gegn hinum lettneska spilaranum. Þetta var síðasti leikur drengjanna í O-riðli.

Drengjaliðið hóf svo keppni um sæti 41-44 með leik við Lúxemborg. Sá leikur tapaðist 1-3 en það var Ingi Darvis sem lagði Jacob Bjurstrom 15-13 í oddalotu, s.s. enn annar háspennuleikurinn hjá drengjunum. Ellert vann eina lotu í sínum leik.
Með tapinu er ljós að drengirnir leika um 43. sæti og þar mæta þeir liði Möltu í annað skipti á mótinu.

Stúlkurnar léku ekki í liðakeppni þann 10. júlí, en leika um sæti 33-36 þann 11. júlí. Þær mæta fyrst Skotlandi og sigurliðið úr þeim leik mætir sigurvegaranum úr leik Austurríkis og Möltu í leik um 33. sæti. Tapliðin leika um 35. sæti.

Keppni í einliðaleik og tvíliðaleik hefst þann 12. júlí. Agnes leikur við stúlku frá Lúxemborg í einliðaleik þann 12. júlí og Harriet við stúlku frá Póllandi þann 13. júlí. Agnes og Harriet leika við sænskt par í tvíliðaleik þann 13. júlí.

Í drengjaflokki mætir Ingi Darvis leikmanni frá Lúxemborg, Gestur mætir leikmanni frá Kýpur og Ellert leikur við Letta. Ellert og Ingi leika saman í tvíliðaleik og mæta pari frá Tékklandi og Slóvakíu. Gestur keppir með leikmanni frá Litháen og þeirra andstæðingar eru frá Kosovo. Allir þessir leikir fara fram þann 12. júlí.

Forsíðumyndin kemur af fésbókarsíðu BTÍ og sýnir Aleksei landsliðsþjálfara segja drengjaliðinu til.

Aðrar fréttir