Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Víkingur og KR-A deildarmeistarar

Síðustu umferðir í Raflandsdeildinni í borðtennis fóru fram í TBR húsinu laugardaginn 22. febrúar. Þá varð ljóst hvaða lið urðu deildarmeistarar en í kvennaflokki var það lið Víkings og í karlaflokki var það KR-A.

Kvennalið Víkings skipað þeim Agnesi Brynjarsdóttur, Lóu
Florionsdóttur Zink, Nevenu Tasic, Stellu Karen Kristjánsdóttur og Þórunni Ástu
Árnadóttur vann báða leiki dagsins. Fyrri leikurinn gegn KR-B endaði 3-0 sem og
síðari leikurinn sem þær spiluðu við KR-C. Þar með náðu Víkingsstúlkur að verja
titilinn frá síðasta ári og eru því deildarmeistarar fyrir tímabilið 2019-2020
eftir að hafa farið taplausar í gegnum veturinn. Í öðru sæti var lið BH og í
þriðja sæti var KR-A.

Deildarmeistarar Víkings

Í karlaflokki réðust úrslitin í síðustu leikjum dagsins en lið KR-A sigraði í báðum sínum leikjum og tryggði sér um leið deildarmeistaratitilinn. Í liðinu eru Breki Þórðarson, Davíð Jónsson, Ellert Georgsson, Gunnar Snorri Ragnarsson og bræðurnir Pétur og Skúli Gunnarssynir. KR-A vann í fyrri umferð dagsins lið Víkings B 3-0 og í seinni umferðinni sigruðu þeir lið HK-A 3-1. Í öðru sæti í deildinni var lið BH-A og í þriðja sæti Víkingur A.

Deildarmeistarar KR-A

Fjögur efstu liðin í karla- og kvennaflokki munu svo leika til
úrslita í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn en úrslitakeppnin hefst 18.
apríl. Þar eiga Víkingsstúlkur og karlalið BH-A titil að verja. Í undanúrslitum
karla mætast KR-A og HK-A
annars vegar og BH-A og Víkingur A hins vegar en í kvennaflokki mætast Víkingur
og KR-C og svo BH og KR-A.

Í neðri hluta deildarinnar endaði lið KR-B í neðsta sæti og
fellur þar með í 2. deild á næsta keppnistímabili. Liðið endaði með jafnmörg
stig og Víkingur B en féll á óhagstæðari hlutfalli unnina og tapaðra leikja.

Í 2. deild lauk einnig keppni í suðurriðli og var lokastaðan
þannig að í efsta sæti var lið Víkings C, í öðru sæti var lið HK-B og í þriðja
sæti var lið KR-D.

Aðrar fréttir